Allt er gott sem endar vel!!!!

Hrakfallabálkurinn ég lenti í ævintýri heldur óskemmtilegu fyrir viku síðan.  Það festist kjúklingabein í hálsinum á mér í hádegismatnum.  Ég var úti í sveit með vinafólki og þau vissu ekki hvaðan stóð á sig veðrið þegar ég stóð upp hóstandi og ælandi að reyna að ná beininu upp.  En allt kom fyrir ekki, hringt var í 112 en þar var okkur sagt þar sem ég andaði og það var í góðu, ætti að bruna með mig á næsta spítala.  Þar var sko beðið, röntgen svo beðið eftir háls-nef og eyrnalækni og endalaus bið en með speglun var beininu svo náð upp rúmum 2klst síðar, þvílík kvöl!!!  En þá var það sko ekki búið okkur var sagt að koma 2 tímum seinna til að vita hvort að það hefði komið sár.  Við drifum okkur að koma krökkunum fyrir og að koma fólkinu heim úr sveitinni, ég mátti hvorki borða né drekka.  Síðan þegar þeir stungu slöngunni niður aftur kom í ljós þessi ljóti skurður á vélindanu!!  Viti menn ég að eyða nóttinni á bráðavaktinni á spítalanum, mér var bannað að drekka né borða þannig það þurfti að setja vökva í æð og þar þurfti ég að dúsa alla nóttina.  Mín kæra vinkona Inma tók börnin með sér heim og þannig endaði það.  Þetta var mikil lífsraun en hér er ég og allt í góðu orðið nú, er reyndar búin að vera á fljótandi fæði í heila viku en er byrjuð að prófa að borða og það virðist vera í lagi.  Varið ykkur á beinunum þau eru hættuleg!!!

En deginum á undan höfðum við farið að heimsækja Þurý og Steinar til Torrevieja og það var frábært, borðuðum kvöldmat með þeim og svo spiluðum við aðeins en Steinar vinnur alltaf svo að það fór eins og það fór hehehehehe.  Takk fyrir okkur. 

Vikan er búin að vera tíðindalítil fyrir utan mikið hungur hahhaahha, kemur sér vel fyrir sumarið, bikinilínuna.  Reyndar keppti ég í padel á þriðjudeginum, gat nú ekki sleppt því hehehe en tapaði 6-0, 6-1, en við fengum fullt af gjöfum þannig að þetta var bara glæsilegt.  Svo sást sjaldséður fiskur hér í Murciu sem heitir Nabila ehhhee, það var frábært að fá hana hún gisti hjá okkur og svo keyrðum við hana aftur til Cehegin.   Börnin eru búin að vera með listaviku í skólanum og eru að læra allt um Van Gogh, Picasso og fullt af öðrum málurum sem ég þekkti varla einu sinni, mér finnst það frábært.

Um þessi helgi var svo önnur keppni í Padel og ég keppti með Martin, töpuðum fyrri leiknum 6-0, 6-0 en seinni leikurinn var langur og spennandi og við unnum á endanum.  Svo var boðið upp á paellu...(ég borðaði bara grjónin, engin bein takk).  Og allt rann í bjór....við skemmtum okkur mjög vel.  Svo vorum við boðin í barnaafmæli, bekkjarsystir Ólafs Ketils þannig að laugardagurinn flaug frá okkur í frábæru veðri.  Í gær fóru börnin í 3falda fermingu en ég dreif mig sko beint á ströndina með Belen og dóttir henna í Alicante það var bara yndislegt, tókum bara heilmikin lit!!!  Fer að setja inn fleiri myndir fljótlega.

Farið vel með ykkur og knús héðan.


Padel ...og helgin.

Jæja þetta líður nú á þvílíkum ofsahraða að það er ekki venjulegt.  En ég er búin að skrá mig ásamt vinkonu minni sem æfir með mér padel á mót í næstu viku úff hahahha.  Við eigum líklega eftir að tapa stórt en mestu skiptir að taka þátt er það ekki....heheheh eða það vona ég.  Við spiluðum um síðustu helgi til að æfa okkur og það var mjög gaman töpuðum fyrir köllunum en...skemmtum okkur.  Svo komu íslendingarnir frá Sauðó í heimsókn til okkar, það var æði að fá þau.  Ég kom reyndar seint eða bara um 14,30 og allir orðnir glorhungraðir.  Það var rölt yfir á el Patio sem er góður veitingastaður hér í nánd en þar var allt pakk og ekkert að losna.  Nú þá í hina áttína á stað sem heitir Sokkurinn(El Calcetin) og þar var líka 15mín bið.....svo það var ekkert annað að gera en að fara í Zig Zag sem er staður þar sem er fullt af skyndibita og skemmtistöðum....Tyrkneskur varð fyrir valinu og sem betur fer fengum við borð þar.  Ég bauð fólkinu að fara með þau í bæinn að sýna þeim miðbæinn í Murciu en þau völdu verslunarmiðstöðvarnar....ég var svolítið hissa til að segja eins og er .....hélt að þau væru sko búin að fá nóg af þeim og búðum...mörkuðum og öllu þessu.  En það var fín ferð í Nueva Condomina með þeim.

Það var búið að bjóða mér á rall um kvöldið þannig að ég var í spreng að gera rækjusalat og túnfisksalat sem ég átti að koma með..til að þau fengju að smakka eitthvað íslenskt í partýinu. Og að reyna að vera kurteis við fólkið mitt í leiðinni og vona að þau hafi samt sem áður haft það ágætt hér í Murciu hjá okkur.  Partýið var bara frábært!!!  Það var afmælisdrengur og honum var komið á óvart með pakka sem kona hafði farið ofaní...það var allavegana mikið hlegið, spjallað og dansað.

Á sunnudag var David strákurinn hennar vinkonu minnar fermdur og ég var nú bara ótrúlega vel upplögð fyrir það....svolítið þreytt en þetta hafðist sko vel.  Fengum rosalega góðan mat á stað sem heitir Hispano og þar borðaði ég á mig gat....nú verð ég að fara að minnka þetta át!!!

Svo er vikan búin að vera fín...á fullu í pappírsmálunum mínum fyrir nafnskírteinin krakkana en það er sko búið að vera skrautlegt.  Svo snéri ég mig aðeins í padel á þriðjudaginn en það var mest þann dag en nú er þetta allt í áttina. Gat spilað í dag og bara þokkalega vel.  Á morgun ætlum við að spila og laugardag....veit ekki með sunnudag en við þurfum að æfa okkur fyrir mótið á mánudaginn.  En við ætlum að kíkja á Þurý og Steinar um helgina...og þetta verður fínt.  Knús á línuna. 


Helgin flaug!!

Já vikan var frekar fljót að líða reyndar er enn slatti að gera í vinnunni því við erum enn eftir á síðan við vorum með talninguna.  Úff sem betur fer sér fyrir endann á þessu eftir að við skilum VSK núna þá held ég að við förum loksins að komast á rétt ról.  Sem betur fer ég hef ekki séð í borðið mitt núna síðan fyrir áramót.  En semsagt í næstu viku þarf ég að skila skattinum af mér eða fyrir 20. apríl þannig að þetta er að verða búið,....en það er sko ekki þar með sagt að það sé ekki vinna, nei bara að maður heldur í það daglega og er nokkuð rólegri en undanfarið, getur farið að hringja í skuldarana sem hefur sko ekki verið neinn tími til.

 Það gleymdist alveg litla prinsessan sem bættist við í þessa fjölskyldu þann 16.mars það er búið að nefna litla krílið Katrínu Björt.  Til hamingju sæta fjölskylda í Danmörku og auðvitað afinn og amman í Hafnarfirði þar sem hún var nú líka nefnd í höfðuðið á þeirri ömmu. Stórt knús.

Á laugardaginn var ég eins og óð hæna í tiltektum, mér fannst eins og ég hefði ekki gert neitt á heimilinu fyrir ferðalögum í ár og daga.  Þannig að það var sko allt tekið í gegn, gluggar að utan og innan, ryksugað, skúrað og þvegið, næstum dauð eftir daginn en það var þörf á.  Ólafur Ketill var svo elskulegur að hann ryksugaði sem betur fer meirihlutann af íbúðinni annars hefði ég nú aldrei komist yfir þetta.  Fór svo ógeð seint að sofa en samt ekki mikið syfjuð.

Á sunnudaginn þrátt fyrir að seint hefði verið farið að sofa vöknuðum við öll rúmlega 9, fengum okkur morgunmat og drifum okkur fljótlega á ströndina til Berglindar, Juanma og stelpnanna.  Það var bara truflað að fara fyrsta daginn á þessu vori á ströndina, börnin þurftu náttúrulega að vaða sjóinn þangað til að þau bleyttu sig eða alveg upp að nára, brrrrr kalt.  Þaðan var rokið til Capo Roig að hitta Lillu, Kalla, Jón, Rakel og Kristínu Báru sem voru svo elskuleg að koma með afmælispakka til okkar og auðvitað páskaeggin!!!! Vorum með þeim fram eftir og það var rosa gaman að sjá þau og eyða þessu litla tíma með þeim, vonum svo innilega að þau geti gefið sér tíma að renna til okkar líka í heimsókn til Murcia.  Vorum komin til Murcia um kl 19 hittum þá vinafólk í garði nálægt sem voru með picnic.....eins og ég segi það er sko farið að VORA ehehhe yndislegt.  Tölvunördin ég aðstoðaði svo Belen vinkonu að setja upp forrit í tölvunni því hún var að fá internet.  En mín var sko alveg búin eftir daginn.  Nú byrjar bara ný vika og hún verður örugglega jafnfljót að líða.  Knús, væri gaman að fá smá komment, því nóg af fólki kemur og kíkir við....þarf ekki að vera langt bara kvitt.  Bæti við myndum frá líðandi helgi. Hafið þið það gott.


Oasis Tropical, Almeria og Alicante.

Jább skruppum á 4stjörnu hótel sem heitir Oasis Tropical, það var bara góður matur, hlaðborð í morgunmat, hádegismat og kvöldmat.  Síðan var spa sem kostaði bara 5€ og var það leigan á handklæði, sundhettu og baðskóm....úff þar var sko allt prófað fyrst áttiru að fara í þurrsauna svo í tyrkneskt sauna, svo kom sturtunudd og svo venjulegt sauna, alltaf þurfti að fara í volga sturtu á milli svo að þetta virkaði rétt.  Á eftir voru svo ávaxtapottur, kaldur pottur, pottur með steinum í botninum til að labba á og svo afslöppunin heitur pottur með nuddi og svo afslöppunarherbergi.  Þetta var svo yndislegt, ég hafði aldrei prófað neitt svona þannig að ég fór sko báða dagana og held að ég hafi hreinsað húðina bara ansi vel. Krakkarnir komu með mér á sunnudeginum en þau máttu ekki fara í neitt nema pottana, en fannst þetta samt frábært.  Við gerðum held ég lítið annað en að borða en jú....fórum á stað sem heitir vestrinn í Almeríu, þar hefur verið reistur svona gamaldags kúrekabær þar sem hafa verið myndaðar 5-6 kvikmyndir, sú síðasta Lukku Láki.  Þetta var mjög skemmtilegt að sjá og svo voru sýningar með kúrekum og þeir voru með byssur, hesta og fullt af látum hehehe, krakkarnir skemmtu sér konunglega.  Fengum óvænta sýningu þar sem kom lítill snákur inn á lóðina hjá veitingastaðnum og þar sem honum var ógnað reyndi hann að bíta frá sér og þá kom í ljós að hann var eitraður, þau náðu að drepa hann á endanum með kústskafti ehehhe.  Við spókuðum okkur um ströndina, týndum steina og nutum þess að vera saman.  Fyrsta kvöldið var galdramaður og tók hann Ólaf Ketill upp á svið og hvað haldið þið.....mamman var ekki með videomyndavélina né venjulega myndavél í för....hræðilegt.  Frábær ferð...svolítið stutt en mjög gaman.

Á sunnudeginum brunuðum við heim en stoppuðum stutt....fórum næstum beint til Alicante þar sem okkur var boðið að gista og svo bara að slæpast.  Við tókum Playstation 2 með og fullt af singstar og hlógum mikið og sungum mikið hehehhe. Ruben og Helena höfðu aldrei prófað þetta en fannst mjög gaman.  Slæptumst um Alicante á mánudag og svo loksins seinnipartinn heim!  Ég var farin að sjá í hillingum heimilið mitt, jább trúið því komið nóg af ferðalögum í bili en ekki lengi hahahhaha. 


Flökkukindurnar.

Hæ og hó, gleðilega páska!! Þó seint sé hehe. Við fórum aðeins á flakk, á miðvikudaginn síðasta lögðum við land undir fót og fórum keyrandi til Madridar.  Þar tóku á móti okkur Valdi og Mar og dæturnar þeirra Núría Líf og Lidía Lind. Við fengum að gista hjá þeim alveg fram á sunnudag, það var bara frábært.  Komum þangað um miðjan dag og það var fínn dagur þannig að við vorum bara þar heima á meðan krakkarnir léku sér, en það var þó nokkuð kaldara þar en í Murciu sem við vorum búin að vera næstum  í  30° hita í heila viku. En þetta var mjög fínt. Valdi og co fóru með okkur til Alcala de Henares þar sem hinn frægi rithöfundur Don quijote var fæddur og uppalin, sá bær er bara í göngufæri frá þeim, þar var náttúrulega sest niður að svala sér með bjór í hönd. Á föstudeginum komu tengdaforeldrar Valda frá Zaragoza og langaði að kynnast okkur, þannig að við borðuðum pizzu með þeim en drifum okkur svo með lestinni til Madridar að kynnast miðborg höfuðborgarinnar sem börnin höfðu ekki farið til enn.  Við fórum í Retiro garðinn, sáum Puerta de Alcala, Puerta de Sol, Plaza Mayor og konungshöllina, við gengum af okkur fæturnar en lentum svo í töfum á bakarleiðinni þar sem voru páskaskrúðgöngur um alla Madrid. Ég rétt gat bjargað börnunum á bakvið rör til að þau yrðu ekki troðin niður, við biðum í svona 10-15mín á meðan mesta brjálæðið leið hjá. Tókum svo lestina rúmlega kl 20 tilbaka vorum dauðþreytt.  Á laugardeginum ætluðum við með Valda og Núríu Líf til Toledo í Ave sem er hraðskeiðasta lestin á Spáni, en veðrið var okkur ekki hliðholt svo að við fórum í Retiro garðinn þangað til að rigningin setti strik í reikningin. Eftir það var náttúrulega haldin smá veisla heima hjá þeim fyrir afmælisbarnið!!! Ólaf Ketil, kaka með kertum og rosa flott.  Svo héldum við heim á sunnudag en fengum fyrst hamborgarahrygg í páskamat og auðvitað páskaeggjaleit fyrir krakkana, það var sko skítakuldi í Madrid þennan dag fór ekki yfir 9°og með roki úff.  Þetta var sko vel heppnuð ferð og með frábæru fólki sem tók okkur opnum örmum.  Vonandi fáum við að bjóða þau velkomin á okkar heimili einhvern tíma.  Takk fyrir okkur Valdi, Mar og co.

Nú á mánudag var vinnudagur ekki eins og á Íslandi annar í páskum en reyndar var annar frídagur í gær sem var Bando de la Huerta sem er Murcia hátíð.  Klæddumst hátíðarbúningnum og fórum með vinafólki í garð nálægt og þar vorum við í picnic og sátum þar umkringd fólki allann daginn í sól og hita, það var hátíðarstemming og vel heppnað. 

Viti menn.....Myndir Nýjar jibbý, úr síðustu ferðum og hátíðum hehehe.

Knús til allra, erum að fara til Mojacar þessa helgi en þá er líka flakkið búið í bili.  


Árin færast yfir.....;)

Jább ef þið hafið ekki tekið eftir því skall á mér eitt ár í viðbót um daginn hehe. Takk fyrir allar afmæliskveðjurnar. Minn kæri Fulgen bauð mér út að borða um kvöldið og gaf mér æðislegan jakka, svona sumarflík eða kannski vorflík hérna allaveganna og svo þegar hann fylgdi mér heim og upp var komið dró hann upp annann pakka og það var sko æðislegt úr frá Tommy Hilfiger ekkert til sparað svo sem.

Daginn eftir fórum við svo til Feneyja, það var frábær ferð, ekki mikið skoðað svosem þar sem þetta er í 3 skiptið sem við erum þar en það var frábært að hitta Mörthu vinkonu sem ég hafði ekki hitt í 6 ár og fá að kynnast syni hennar Daniel og manninum hennar betur Alessandro.  Við fórum út að borða nokkrum sinnum og krakkarnir skemmtu sér líka vel.  Veðrið hefði mátt vera betra þó að ekki getum við beint kvartað.  Það var þoka eiginlega allann tímann og Ólafur Ketill var í fyrsta skipti pínu smeykur við  lendinguna því flugstjórarnir settu sjálfstýringuna á fyrir lendingu því það var svo mikil þoka og Ólafur Ketill varð pínu smeykur við það, vissi ekki að flugvélin gæti þetta en allt er einhvern tíma fyrst og þetta gekk eins og í sögu.  Þetta var upplifelsi eins og flest ferðalög og minnistætt.

Svo þegar heim kom var prófhrina hjá Ólafi Katli og honum gekk frábærlega sem er svosem ekkert nýtt, hann er frábær námsmaður.  Síðustu helgi fórum við svo með Fulgen á laugardeginum út að borða til Alicante og á sunnudeginum var haldið upp á 80 afmæli frænda hans og vorum við um 20 manns sem fórum á ítalskan veitingastað saman.  Áður en við fórum út að borða bauð Fulgen mér á tónleika sem voru reyndar stuttir en mjög skemmtilegir.  Þetta var góð helgi og allt er á uppleið með vorkomu.  

Til hamingju með að vera komin í heiminn litla Ragnhildardóttir!!!! Hún fæddist þann 10.03.2008 sama dag og Fulgen á afmæli, ekki slæmur dagur sem hún valdi sér.  Ég færði elskunni minni nokkrar gjafir, rakspíra, kortaveski og íþróttaföt, einnig fékk hann nudd því hann var að drepast með eitthvað tak í bakinu.  Það varð nú að dekra við hann þetta var nú einu sinni afmælið hans.

Jæja nú er að koma páskafrí og við erum að leggja land undir fót eina ferðina enn og skreppa til Madridar en hugsa að ég skrifi nú áður.  Knús til allra. 


Sierra Nevada og Feneyjar.

Jább tveir mjög ólíkir staðir, en það vill þannig til að ég var í Sierra Nevada með Fulgen um helgina. Við fórum á skíði á laugardaginn þó að spáin væri þannig að það yrði ekki hægt en við fengum þennan fína snjó og skemmtum okkur mjög vel.  Höfum líklega skíðað í svona 3klst og vorum alveg búin á því eftir það.  Það er svona þegar maður er ekki búin að fara á skíði í 2 ár.  Við semsagt komum til Sierra nevada um kl 22 á föstudagskvöldi og vorum og íbúðahóteli sem er næst lyftunni til að komast upp. Eitt af flottari hótelum og auðvitað með þeim kosti að það er ekki hægt að komast nær brekkunum. Spáin áður en að við fórum var ekki sem best enda skíðuðum við bara á laugardeginum en snjórinn hefði ekki getað verið betri, það fór svo að rigna seinnipartinn. Við vorum bara í rólegheitunum að tala um daginn og veginn og okkar samband sem er ekki alveg á réttri braut núna og erum við að hugsa um að ljúka því en það er ekki alveg komið í ljós.  Það getur nú verið ein af skýringunum af dvalanum sem ég hef verið í enn ég elska þennan mann mjög mikið en þar sem hann er ekki alveg tilbúin þó að hann elski mig mikið líka að gefa mér það sem ég þarf og vil þá verður það líklega helsti kostur okkar.

Næstu helgi eða núna á fimmtudeginum er ég að fara með börnunum mínum til Feneyja að hitta gamla vinkonu sem ég kynntist í Madrid 1996 til að vera hjá henni og fjölskyldunni hennar.  Vá það verður frábært.  Við verðum fram á mánudag og missa börnin því 2 daga úr skólanum en þar sem þeim gengur svo vel að þá er það bara í góðu lagi.  

Annars gengur lífið sinn vanagang og sem betur fer er aðeins farið að hækka hitastigið og sólin á lofti, það lyftir manni upp.  Bróðir minn er á batavegi og nú fer að fjölga í fjölskyldunni heldur betur von á einu hjá Ragnhildi frænku og svo hjá Diddu sem á nú afmæli í dag TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN!!! og Sigmari frænda sem búa núna í Danmörku.  

Jæja nóg í dag, set kannski myndir eftir helgi úr ferðalögunum báðum. 


Hugleiðingar um lífið.

Halló allir.  Jább vonandi verður þessi færsla til að ég komi úr dvalanum sem ég er búin að finna mér og ja kemst nú varla útúr þó að ég feginn vildi.  Það eru endalausar uppákomur í þessu blessaða lífi og þær virðast ansi margar vera neikvæðar í kringum mig þennan veturinn.  Ég er búin að liggja í dvala og reyna að kynnast sjálfri mér og minni innri manneskju til að geta orðið einhvern tíma betri manneskja en ég er í dag.  Við höfum öll gott af því að fara inni í okkur stundum og virkilega grafa og leita og skoða.  Ég hef allavegana haft mjög gott af því.  Hef lært að ég hef kannski ekki verið nógu ákveðin að standa á mínu, hversu mikil áhrif fyrirgefningin getur haft, ræða málið er það mikilvægasta í lífinu sem við höfum og ég held að oft tölum við of lítið saman til að segja okkar skoðanir hvort á öðru....ATH án þess að rífa hina manneskjuna í sig eða rífast. 

Við sjáum mjög oft ekki okkar eigin vitleysur eða hluti sem við gerum nokkuð vel en gætum gert þó nokkuð betur ef okkur væri bent á það.  Fólk er mjög hrætt við að kynnast sínum innra manni oft á tíðum, við reynum að komast hjá því að skoða það sem við vitum kannski að við gætum gert betur því það er ótrúlega óþægilegt og erfitt að játa að maður hafi galla.  En við höfum þá öll, mjög mismunandi og þeir hrjá okkur mismikið en margt í mínu lífi hefur brunnið á mér undanfarið og það varð til þess að ég fór inn í mig hehe.  Ætla sko að halda áfram að koma útúr skelinni, segja mína skoðun, þó án þess að særa neinn vonandi en til leiðbeiningar fyrir mig og aðra.  Standa á mínu, ég hef komist að því að ég er manneskja sem þarf mikla ást, umhyggju og að fólk miðli því til mín á einhvern hátt.  Held að ég reyni að gera það sama við vini og fjölskyldu.

Jæja að öðru leyti höfum við það ágætt, ég er reyndar búin að fara í heilaskanna vegna svimans, þar sem ég fæ niðurstöðuna á morgun en þá þarf að lesa úr þeim.  Taugasérfræðingurinn fann ekkert að mér, allar prufur sem hún gerði eðlilegar.  Reyndar komst ég svo að því í síðustu viku að sjóninni minni hef hrakað mikið undanfarin mánuð....hvers vegna eða hvort að það tengist svimanum það kemur í ljós þegar ég fer til taugasérfræðingsins aftur.  Börnin hafa það flott Ólafur Ketill stendur sig eins og hetja í prófunum eins og alltaf, finnst gaman í píanótímunum og Perla Líf er bara skemmtileg, reynir að komast hjá því að læra og er mjög ólík bróður sínum.  Hún hefur verið miklu betri af asmanum þennan veturinn sem betur fer.  Ég er alltaf í padel en hef verið löt í annarri leikfimi þá sérstaklega útaf þessu með svimann og það vesen.  Er núna búin að skrá mig á padelmót sem byrjar örugglega í mars.

Það sem er mest að hrjá okkur núna að elsti bróðir minn liggur þungt haldinn á spítala vegna heilahimnubólgu.  Þetta tekur mikið á að vera svona langt í burtu, þegar fjölskyldumeðlimir eru mikið veikir, maður myndi vilja geta styrkt fjölskylduna í nálægð og farið að heimsækja hann og senda honum styrk þannig en bænirnar sem við sendum honum héðan eru vonandi nógu sterkar og komast til hans að öllu því afli sem við sendum þær.  Elsku fjölskylda, hann mun ná sér!!! Við leyfum ekkert annað.

Í þessum dvala sem ég hef verið hef ég fengið mikinn stuðning og hef sko þurft á honum að halda.  Finnst ég vera að styrkjast í þessu öllu saman og í áttina að finna mitt sjálf.  Góðar vinkonur, mágkonur og fjölskyldan hefur verið þarna, úff sem betur fer.  

Jæja vonandi fer nú veturinn þarna á klakanum að láta undan og leyfa ykkur að fá smá hvíld og betri tíma, ekki hefur hann nú verið til að bæta það hef ég séð.  Vorið kemur nú með sól og birtu á lofti og jákvæðari tímum ég finn að þetta ár mun batna!!

Knús til ykkar!!! 


GLEÐILEGT NÝTT ÁR!!!

Bestu nýárskveðjur til ykkar allra bestu vina og vandamanna sem fyrirfinnast. Vonandi hefur gamlaárið kvatt ykkur með stæl eða á þann hátt sem þið helst kusuð...í rólegheitum eða á svaka djammi!!!  Ég var í rólegheitum með kvöldverðarboð heima hjá Fulgen með vinafólki, grilluðum heilt lítið svín, það er ekkert smá gott.  

Ég fékk jólagjöfina mína í dag þar sem hér eru aðalpakkajólin í dag.  Ég fékk þessa geðveiku videomyndavél sem mig er búið að langa í síðan börnin mín fæddust.  Þetta er orðið að veruleika og nú er að vera duglegur að taka þau upp bak og fyrir.  Hvort það kemst hérna inn á síðuna er svo annað mál heheh, þið sem þekkið mig vitið um hvað ég er að tala eheh. Ok ég skal reyna að standa mig betur :)

Með ósk um að þetta nýja ár uppfylli allar helstu óskir ykkar og verði til gæfu og góðs á öllum sviðum.  Sjáumst hress í sumar og ef fyrr þá er það bara hið besta mál.

Áramóta og saknaðarkveðjur.


Gleðileg jól vinir og vandamenn!

Gleðileg jól allir, er svolítið sein í þessu en er búin að vera á heimilli n°2 að undanförnu og lítið verið við tölvuna, því hér er bara talvan hans Fulgen og þá er spurning um að grípa hana þegar hann er ekki að nota hana sem getur nú bara verið svolítið flókið mál.  Reyndar ætti ég nú frekar að segja Gleðilegt ár og geri það hér með en þar sem ég var ekki búin að óska gleðilegra jóla hér á netinu að minnsta kosti verður maður að gera það.

Ég vil byrja á því að bjóða nýjasta fjölskyldumeðlimin velkomin í heiminn, lítil frænka sem fæddist í gærkvöldi, barnabarn Ísleifs bróðurs.  Vona að hamingjan sé að gera útaf við þau á þeim bæ.

Takk fyrir öll fallegu jólakortin, reyndar komu þau flest eftir jól en það  var sko ekki ykkar sök.  Hér fóru póstburðarmenn í verkfall 3 dögum fyrir jól þannig að allt var stopp.  En ég held nú að ég sé búin að fá þau flest.  Það sem er að frétta af mér að ég varð hundslöpp og veik strax daginn eftir að krakkarnir fóru....ekkert smá fúlt því ég ætlaði svo að vera á búðarrápi, fara út með vinkonum mínum og hafa það notó en það varð lítið úr því þann föstudaginn.  En á laugardeginum fyrir jól fór ég nú bara samt á búðarráp þó að ég væri með svima og hálfgerða ógleði og það smátt og smátt lagaðist.  En það á nú ekki að hrósa happi of snemma því svo núna á miðvikudag byrjaði sviminn aftur og þá fór mér nú ekki að standa á sama!!!  Hafði fengið þetta í haust og hélt að það væru axlirnar og vöðvabólga sem væru að hrjá mig en nú er þetta að koma aftur.  Fór í blóðprufu og það kom allt frábært út úr henni nóg af járni og kólesterólið á góðu róli....semsagt ekkert að mér sem angrar mig meira en allt því ég er enn með svima og viðbjóð.  Nú á ég tíma hjá eyrnalækni til að reyna að komast að hvort þetta stafi frá miðeyranu en þetta hljómar fyrir mér að þeir finni ekkert að mér og þetta sé eitthvað sem erfist því pabbi er alltaf með svima af og til og ekkert finnst að honum.  Mér finnst það óþolandi tilhugsun að ég sé komin með einhvern svima til að vera....til æviloka ojbara!!

Jæja en jólin eru búin að vera róleg, á aðfangadagskvöld vorum við heima hjá Jose og Chiqui með allri fjölskyldunni, reyndar voru börnin hans Fulgen ekki því þau voru í Cartagena með móðurfjölskyldunni sinni.  Jólasveinninn er farin að gefa mér hrukkukrem sem hljómar nú ekki nógu vel hahahahha.  Vorum svo með mömmu Fulgen, frænda og systur á jóladag.   Semsagt alls ekki búin að vera ein, þetta er búið að vera notalegt og rólegt.  Fórum í bíó að sjá The Legend í gær með vinum og það var bara nokkuð góð mynd.  Will Smith er rosa gæi mar, þvílíkur kroppur ehhe. 

Börnin hafa það gott á klakanum og eru sæl með að það hafi snjóað þó að það virðist hverfa hratt hjá ykkur í dag í þessum viðbjóð sem þið eruð að upplifa.  Ég held að ég hafi bara aldrei munað eftir þvílíkum vetri með vindi og rigningu að það þurfi að aflýsa flugi, skólum og öðru.  Úff maður þá get ég sagt að ég öfundi ykkur ekki, hér er hæglætisveður frekar svalt eða 4° til kannski 12° þannig að maður getur ekki kvartað í raun.

Ætla enda þetta á að segja GLEÐILEGT NÝTT ÁR og takk fyrir öll þau liðnu.  Sjáumst hress og kát á nýju ári 2008 verð á klakanum í ágúst.  Snemma í að láta vita, svo að maður geti hitt sem flesta!!

Jóla og áramótaknús


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband