Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Uppákomur.

Það er langt síðan síðast, ég veit en þessi mánuður hefur verið mjög uppátækjasamur og þá ekki í góðri meiningu.  Flestir mínir nánustu og vinir vissu að ég kom til Íslands í skottúr um miðjan mánuð.  Það var yndislegt að sjá ykkur öll en ég hefði samt viljað að það hefði verið í öðrum tilgangi en þetta er gangur lífsins.  Ég vil þakka öllum fyrir hlýhug í sambandi við fráfall föður míns, þið voruð öll yndisleg og það var æðislega gott að finna hvað maður á góða að á Íslandi þó að ég sé búin að búa svona lengi á Spáni.

En það sem er búið að vera að gerast hér að öðru leyti er að ég er byrjuð að kenna ensku seinnipartinn á daginn, krökkum og fullorðnum eða bara þeim sem vilja.  Þetta gengur vel og sjálfsálitið með kennsluna er smám saman á uppleið. Ég á enn svolítið erfitt með að útskýra flóknari málfræðiatriði en þá fer maður bara á netið og rifjar upp, ég kann að nota þetta flest en málfræðinöfnin á ensku og að útskýra er allt dottið uppfyrir. En eins og ég segi allt á uppleið. Yngsti nemandinn minn er lítil stelpa sem er 20 mánaða ekkert smá fyndin.

Er komin í sparnaðarhugleiðingar að öðru leyti og er hætt í padel tímum en nú er bara að leigja völl og spila við Martin, Inmu, Javier eða Domingo.  Við spiluðum á föstudaginn og ég er svo montinn því ég vann Martin, spilaði með kærasta Inmu og við unnum þau hehehe ekkert smá góð.

Aðrar hugleiðingar sem eru í gangi ég veit að það er kreppa en íslendingar hafa nú alltaf verið frægir fyrir að þurfa að komast í sólina.  Hér set ég slóð á ódýr hús/íbúðit til leigu nálægt mér hehee svo að þið komið nú líka að heimsækja mig en við ströndina.  Skora á ykkur að skoða málið það er þess virði ef þið viljið panta þá er hægt að gera það á síðunni en þið mættuð setja emailið mitt aukalega svo að ég viti að þið komið í gegnum mig.  

http://spann.is

æi hún vill ekki leyfa mér að setja þetta inn sem tengil þannig að þá er bara afrita og skeyta.

Í gær hélt ég afmælisveislu fyrir stóra strákinn minn og það voru bara fáir en hans bestu vinir.  Þannig að þau skemmtu sér konunglega, borðuðu pizzur og köku síðan voru þau bara að spila.  Þessi börn stækka ekkert smá hratt, vá maður.

Jæja nóg í bili, knús og farið vel með ykkur!

 

 


Afmælisferðalagið.

Hún átti afmæli á föstudaginn, hún átti afmæli......hehe bara djók sko.  Annars var þetta svo æðislegt afmæli að ég er stolt af því.  Semsagt ferðalagið sem ég nefndi við ykkur í síðustu færslu er semsagt yfirstaðið og á endanum fórum við bara 2 pör.  Hin vinkona okkar varð að vera eftir vegna þess að mamma hennar var lögð inn en við söknuðum þeirra mikið.  Það er nú ekki þar með sagt að við höfum ekki notið okkar. 

Vorum komin á leiðarenda um kl 13 til Antequera, akkúrat á flottum tíma til að henda töskunum inn á hótel og fara svo í göngutúr um bæinn, smakka bjórinn og náttúrulega matinn frá þessu héraði eða það týpíska allavegana.  Fundum fljótlega þennan fína bar og þar létum við þjóninn bara mest um að ráða matarvalinu en hann fór alveg á kostum, þetta fólk er svo opið og skemmtilegt og smámælt í þokkabót.  Röltum svo bara eftir þennan fína mat að fá okkur eftirrétt og kaffi.  Auðvitað má ekki gleyma siestu Spánverja sem við nutum í botn á okkar 4 stjörnu hóteli.  Um kvöldið fórum við aftur í göngutúr til að ganga af okkur matinn og til að geta farið út að borða um kvöldið án þess að fá samviskubit.  Fundum þennan fína veitingstað og þar var pantað fyrir kvöldið.  Dressuðum okkur svo upp og kvöldið var frábært.  Fékk pakka og læti hehehe, borðuðum nautahala, rjúpur, salat sem var saltfiskur og appelsína  (svolítið mikið öðruvísi) en það er okkar mottó að panta mat sem við þekkjum ekki og prófa allt nýtt sem mögulegt er.

 Daginn eftir rigndi, ekki mjög mikið en samt nóg til að það var lágskýjað en við vildum fara upp í fjöllin og sjá náttúrulega steina eða sem hafa myndast í gegnum aldirnar.  En þar var svo mikil þoka að við nutum þess lítið en við tókum eitthvað af myndum og stoppuðum stutt.  Þá var ferðinni heitið til Ronda sem var í kringum klst í burtu.  Vorum komin þangað um kl 13.30 og settum dótið inn á hótel og leituðum svo upp bar sem næst hótelinu og þar sem bæjarbúar fara á ekki þar sem túristar fara á.  Þegar leitin stóð sem hæst rigndi eins oghellt úr fötu en við vorum vel búin og létum það ekki á okkur fá.  Fengum þarna fullt af tapas og bjór og þetta var svo ódýrt að við áttum ekki til orð. Siestan gleymdist auðvitað ekki og svo kvöld göngutúrinn áður en farið var út að borða.  Flott veitingahús og Martin bauð okkur í tilefni af afmælinu mínu og Domingo líka sem var með okkur.  Nautahali var sko aftur á borðum því hann er svo góður að það er ekki fyndið, rauðvín og bara ólýsanlegt.

En held að ég sé hætt þessum upptalningum og láti myndirnar tala sínu máli.  Er í skýjunum yfir þessari ferð....þangað til önnur toppar hana.

Knús á alla


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband