Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Ævintýraleg skíðaferð til Sierra Nevada.

Jámm skellti mér með Martin á skíði um helgina, við vorum ansi lengi að ákveða hvort við ættum að fara og svo var að velja hótel, skíðagræjur fyrir hann því hann hefur aldrei farið á skíði, keðjukaup á bílinn og allskonar snúningar.  Ákváðum að taka okkur bara frekar flott hótelherbergi og fara frekar með nesti en þá meina ég svona tapas eins og spánverjar borða, góða osta, hráskinku, foie sem er svipað og kæfa en miklu betra, auðvitað var bjórinn með og rauðvínið.  Við lögðum af stað snemma á föstudag eða strax eftir vinnu hjá mér um kl 14, ég byrjaði að keyra en þegar kl var orðin rúmlega fjögur var ég dauð úr hungri úff maður.  Við stoppuðum og bjuggum okkur til þessar fínu samlokur með krabbasalati og kjúklingasalati.  Vorum svo komin til Sierra nevada um kl 18, það var enn bjart og Martin átti ekki til orð hafði aldrei séð svona mikinn snjó á ævinni, en samt voru göturnar auðar en snjór í brekkunum og þar sem átti að vera snjór.  Fórum upp á hótelherbergi sem var jr svíta og var hún mjög stór og fín....reyndar það fyrsta sem við sáum voru kojur og sögðum bæði í kór "ekki segja mér það" en svo fórum við aðeins lengra inn í herbergið og þá var þetta risahjónarúm, smá stofa, baðherbergi með stóru baði og bara glæsilegt, pínu gamalt en flott...það sem setti punktinn yfir iið voru svo svalirnar.

Laugardag borðuðum við morgunmat á hótelinu, leigðum skíðin fyrir Martin og fórum að sækja lyftukortin okkar.  Reyndar renndum við okkur á skíðunum niður á Pradollano sem er aðaltorgið og ég hélt að ég myndi drepa greyið Martin sem hefur ekki stigið á skíði á æfi sinni, hann datt ca hundrað sinnum og meiddi sig á hnénu en það var hans helsta hræðsla að hann myndi stúta á sér hnjánum, þannig að ég var pínu stressuð en þetta gekk.  Fórum svo upp í grænu brekkurnar þar sem hann var öruggari og það gekk bara mjög vel.  Eftir nokkrar ferðir var honum farnar að leiðast alltaf sömu brekkurnar þannig að við ákváðum að fara að fá okkur í svangin og hvíla okkur aðeins, það var líka byrjað að snjóa, reyndar fyrir dágóðu en við létum það ekki á okkur fá.  Veitingastaðirnir voru stútfullir en við fundum okkur smá horn og nutum bjórsins og samlokunnar.  Martin vildi svo endilega prófa aðra lyftu og þar af leiðandi aðra brekku, vorum búin að kíkja á kortið til að renna okkur svo bara beint niður á hótel en það voru reyndar erfiðari brekkur (bláar) en mér fannst hann orðin svo klár að það var ekki málið.  En það var komin miklu meiri snjókoma sem fór öll í augun, við höfðum gleymt gleraugunum, Martin var bara brandari meirihlutann af leiðinni og datt ég veit ekki hvað oft, ég gat ekki annað en hlegið hahaha.

Höfðum það svo ógeð kósí í snjókomunni inni á herbergi, nutum þess að vera til og stóra málið bíða eftir FÓTBOLTALEIKNUM mikla Barcelona-Real Madrid, það átti sko að horfa á það uppi á herbergi með bjór í hönd enn...svo var sko aldeilis ekki, vegna veðurs sást leikurinn ekki uppi í herberginu fyrir utan það að sjónvarpið okkar var BILAÐ....nú fór Martin að vera stressaður, fengum lánað nýtt sjónvarp en það var það sama ekki stöð 6.  Fórum niður og horfðum á leikinn með fleira fólki í sjónvarpsholinu en í seinni hálfleik datt allt út, úff engin fótbolti....fyrir utan að ekki mátti reykja þarna niðri eða reyndar neins staðar á hótelinu.  Fórum fljótlega upp og Martin hlustaði á leikinn í gegnum útvarpið á símanum. Þeir eru til margs góðir þessir símar nú til dags, bjargaði mér alveg!!!  En ekki hætti að snjóa og rok, úff alltaf bætti í snjóinn en þetta var æði til að byrja með enn....

Á sunnudag sást ekki útúr augum fyrir snjókomu, lokað fyrir allt skíðasvæðið og allt í hassi.  Martin gat engan veginn séð hvernig í ósköpunum við áttum að komast burt með allann þennan snjó á bílnum og við áttum líka eftir að setja keðjurnar undir sem hvorugt okkar hafði nokkurn tíma á ævinni gert.

SunnudagurÞarna er semsagt ég við bílinn á sunnudaginn þegar reyna átti að komast heim. Okkur tókst við þó nokkuð bags að koma keðjunum undir, koma bílnum í gang sem var ekkert alveg gefið og gera hann að mestu klárann ef snjóruðningstækið kæmi og hreinsaði bílastæðið og röðin af bílum sem var niður brekkuna kæmist eitthvað áfram.  Skiluðum herberginu um kl 13 og þá byrjaði biðin, röðin fór ekkert áfram, allt pikkfast og þar af leiðandi ekkert snjóruðningstæki og ef eitthvað var þá bætti bara í snjókomuna, úff stress það var ekkert útlit fyrir að komast heim þennan daginn, hvað segir yfirmaðurinn??? Martin var ekki mjög glaður ...en hvað gátum við gert, húktum niðri í sjónvarpsholi og pældum hvort við ættum að hanga hér og bíða eða bara ná okkur aftur í herbergi??? þetta var erfið spurning en fljótlega ákváðum við bara að kýla á herbergi og hafa það gott, sjá til hvort að seinna við kæmumst í burtu og þá myndum við reyna að fá þessa klst fríar.  En veðrið breytist ekkert og nú vorum við farin að fá skilaboð frá vinum sem sáu fréttirnar að það var búið að loka fyrir alla umferð til og frá Sierra Nevada og meira segja hraðbrautin sem liggur í gengum fjallgarð þar var búið að loka líka.  Geðveik ákvörðun sem herbergið hafði verið úff, fengum sama herbergið en á mjög lágu verði.  Kíktum svo niður og hlógum um stund af þeim sem enn voru með þrjóskuna í hávegi að reyna að grafa sig út í brjálaðri hríð og allt lokað.

Mánudagurinn rann upp, Martin var þá miklu rólegri en ég, kúrðum framyfir kl9 en fórum svo að borða morgunmat.  Hann vildi bíða þangað til að hann sæi snjóruðningstækið til að gera bílinn tilbúin en ég fékk hann til að skipta um skoðun og við hreinsuðum bílinn og sem betur fer var sól þannig að hún hjálpaði mikið til....ekki halda að við höfum grafið með skóflu!!!!! Nei það voru bara örfáar og þar sem við vorum innst þá voru aðrir að nota þær....guðskaflarnir voru notaðir.

MánudagurhúddiðJamm þetta er Spánn þessa dagana. Þetta var geðveik vinna enda fékk ég að finna fyrir því, ég var að drepast úr harðsperrum á eftir. Ótrúlegt en satt er það. En við komumst semsagt heim á þrjóskunni og vegna þess að veðrið var gott á mánudeginum en bara til að þið vitið það, snjóruðningstækið kom aldrei inná bílaplanið, bara gamla góða aðferðin ýta afturábak og áfram til skiptist.  Komum í hús um kl 21 en við stoppuðum á leiðinni og fengum okkur alvörumat ekki TAPAS þó að þær séu góðar þá var okkur farið að langa í MAT!!

Þetta var vel þess virði en ef það hefði verið hægt að vera meira á skíðum þá hefði það verið enn betra.  Held sem betur fer að Martin hafi ekki fengið ógeð og komi með næst ahhahaha.

Jólaknús á alla, guð veri með ykkur.


Jólin koma.

Halló elsku vinir og vandamenn. Já ótrúlegt en satt jólin eru að skella á eina ferðina enn. Þetta er alveg ótrúlegt hvernig þessi ár fljúga hjá eins og ekkert sé.  Reyndar verð ég nú að segja að þetta ár hefur verið mjög viðburðarríkt og vægast sagt skemmtilegt, þó að auðvitað hafi það verið erfitt sérstaklega í upphafi árs. 

Við fjölskyldan tókum okkur til á miðvikudaginn síðasta, settum jólatónlist og skreyttum jólatréið.  Það var skemmtileg stund eins og alltaf og íslenska jólatónlistin fyrir mér er alltaf minningar um jólin á Íslandi sem ég verð að segja að ég sakna alltaf, get ekki vanist þessum jólum hérna á Spáni, kannski vegna þess að það vantar fjölskylduna og íslensku vinina.  Æi þetta er bara ekki eins, þó að ég eigi yndislega vini hér sem hafa tekið mér opnum örmum og reynst mér eins og fjölskylda þegar á hefur þurft að halda.  Ólafur Ketill og Perla Líf bíða spennt eftir að íslenski jólasveinninn láti sjá sig og haga sér mjög vel, standa sig vel í skólanum, það er í raun ekki hægt að kvarta.  Þau eru yndisleg.

Á laugardaginn hélt ég veislu á íslenska vísu hérna heima hjá mér, hafði fengið sent íslenskt lambalæri og það eldaði ég með brúnuðum kartöflum og brúnni sósu.  Þetta sló aldeilis í gegn, þó að spánverjunum líki misvel brúnuðu kartöflurnar.  Martin bætti reyndar við matseðilinn og gerði forrétt sem voru fyltar paprikur (erfitt að útskýra ekki hráar) þær voru mjög góðar og eftirréttinn sá hann um líka sem var geðveikur ís með karamellusósu. Conchi átti afmæli þannig að við gáfum henni smá uppákomu hahaha.  

Börnin fóru til Ninesar og eru búin að vera þar alla helgina, koma seinnipartinn í dag, hér er nefnilega frídagur í dag. Ég vaknaði frekar snemma til að reyna að skoða alla möguleika í sambandi við skíðaferðina okkar Martin sem er á áætlun næstu helgi, vá það verður geðveikt fjör.  Þar er svo mikill snjór núna að meirihlutinn af brautunum eru opnar sem var bara helmingur eða minna í fyrra á þessum tíma. Verðum víst að redda okkur keðjum og allt, held að ég hafi bara aldrei í lífinu notað keðjur.  En held að þetta verði frábær ferð.  Undirbý bílinn á fimmtudaginn, þá fer ég með hann í 50000 km skoðun þannig að hann á að vera pottþéttur fyrir ferðina.

Ekkert hefur verið hjólað undanfarið fyrir kulda og það finnst mér alveg hræðilegt en vonandi get ég notað hjólið í þessari viku þar sem hitastigið hefur farið aðeins upp á við, En við höfum verið að spila padel á fullu ég spilaði 5 sinnum í síðustu viku þannig að ég er ekki alveg hætt að hreyfa mig, sem betur fer.

Jæja nóg af okkur í bili. Jólakveðjur


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband