Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007
Jæja loksins barnlaus en enn að vinna.
28.7.2007 | 15:40
Jæja nú er ég búin að vera barnlaus í rúma viku. Þó að maður hafi mikla löngun til að fá frí frá börnunum þá tekur það ótrúlegan tíma að jafna sig eftir að þau eru farin og byrja að njóta þess. Fyrstu dagarnir voru erfiðir því ég vissi að Perla Líf hefði versnað af asmanum og þá er maður nú ekki alveg rólegur og svo bara er maður háður þeim!! Er samt búin að hafa nóg að gera, er búin að vera vinna af mér Mallorka ferðina og þegar ég fór norður að hitta Fulgen. Þannig að ég er þessa viku búin að vera flesta daga í vinnunni til 18-19 og þá er nú lítið eftir af deginum. Síðustu tímarnir í Padel voru líka í þessari viku og vorum við að spila í 2 tíma á mánudag en svo bara í tæpan klst á miðvikudag því þá kom Fulgen að sækja mig til að fara út að borða með kennurunum á námskeiðunum þar sem hann er með sitt námskeið.
Ég hef í raun verið heppin þessa vikuna því Fulgen er búin að vera með bílinn minn því hans var á verkstæði, annars hefði ég sjálfsagt verið á útsölunum sem er stórhættulegt!!! Hef semsagt verið mjög stillt. Erum búin að vera á ýmsum jasstónleikum sem Fulgen hefur verið að stilla á og manni hefur sko ekki vantað að borða, úff. Nú er loksins námskeiðinu lokið sem Fulgen var að kenna á og síðustu skipulögðu jasstónleikarnir í kvöld. Erum aðeins byrjuð að hugsa um sumarfríið okkar sem byrjar á miðvikudaginn, erum enn ekki alveg ákveðin en erum með frábærar hugmyndir!! Þess verður notið í botn. Vonandi eru allir að njóta lífsins í fríi eða ekki en allavegana rosa kveðjur og knús héðan.
Fullt af fréttum.
17.7.2007 | 14:33
Er ég löt??? Það getur ekki verið.... Ja það er alltof heitt hérna núna til að vera í tölvunni, maður vill helst bara liggja í sófanum og hreyfa sig sem minnst, en ég get alveg sagt ykkur að það er mun kaldara núna í júlí heldur en oft áður.
Ja ég er nú ekki búin að kjafta frá hinu frábæra ferðalagi mínu til norður Spánar nánar tiltekið til Pontevedra um daginn. Nú hann Fulgen minn var að vinna þar sem kennari á námskeiði og þar sem ég var ekki búin að hitta hann í rúmar 2 vikur og aldrei komið til norður Spánar ákvað ég að koma gæjanum á óvart hehe. Þið hefðuð átt að sjá andlitið á honum en hann varð rosalega glaður í raun og við höfðum það rosalega gott þessa helgi. Ég spókaði mig um þarna á meðan hann var að kenna, skoðaði Pontevedra, aðeins Santiago de Compostela og svo fór ég með vinkonu á strönd atlandshafsmegin sem er nú skrítið fyrir mig sem er hérna miðjarðarhafsmegin en sjórinn var ótrúlega hlýr og þetta var æðisleg ferð. Síðasta kvöldið fórum við niður til Portúgal til Valenca og þar inni var lítill bær innan múraveggja og þar voru búðir og veitingastaðir, borðuðum rosa góða fiskirétti, lax og saltfisk og útsýnið var ekkert lítið yfir spán og portúgal á sama tíma.
Perla Líf mín varð náttúrulega lasin á meðan ég var í burtu og fékk bronkítis sem þýddi að asminn tók sig upp líka en við fórum aftur til læknis í gær og þetta er á niðurleið en það þarf samt að berja asmann aftur betur niður, hún er ótrúlega viðkvæm þetta grey. Krakkarnir eru svo bara búin að vera í sumarskólanum alla síðustu viku og ég ákvað að fá að hafa þau þessa líka þar sem þau fara til Íslands seint á föstudagskvöld.
Ég er búin að spila padel eins og brjálæðingur og er orðin svo húkt að það er ekki fyndið. Reyndar var ég að spila í gær og meiddi mig eitthvað í úlnliðnum og er með teygjubindi á henni en ég verð að vera orðin góð fyrir morgundaginn því þá á að spila aftur í 2 tíma.
Helgin var fín, fórum til Campoamor sem er strönd í Alicante héraði en þar var vinkona mín Henar sem var með mér á Íslandi í fyrra og kærastinn hennar, fórum að borða í Torrevieja svo vorum við á ströndinni og svo til Fulgens að gista um kvöldið. Jæja svo sem engar brjálaðar fréttir, bara lífið gengur sinn vanagang að öðru leyti. Erum að fara pakka fyrir Íslandsferðina.
7 Ára 07.07.07 þvílíkur afmælisdagur.
11.7.2007 | 16:59
Jább hún dóttir mín Perla Líf varð 7 ára þann 07.07.2007 þetta passar ekkert smá vel. En þar sem við búum í borg þar sem fólk fer á ströndina um helgar á sumrin var ákveðið að halda smá afmælisveislu á fimmtudeginum 05.07.2007 það var sko ekkert verri dagur og þetta tókst með eindæmum vel. Við gerðum þetta á sama máta og í fyrra bara úti á róló, afmælið hennar Zaidu var haldið deginum áður á sama róló og þetta er ein besta uppfinning verð ég nú bara að segja. Við vorum langt fram eftir kvöldi eða til rúmlega 10 en þá var orðið svolítið svalt þar sem hafði verið skýjað um daginn. Perla Líf fékk Nintendo DS leikjatölvu frá mér, afa og ömmu Sóldísi og svo fékk hún fullt af fallegum hlutum.
Á sjálfan afmælisdaginn var hún með Belen, Nataliu, Belen dóttir, Paulu og Ólafi Katli á ströndinni, fékk náttúrulega aftur köku og blása á kerti á þennan merkisdag sem verður aldrei svo flottur 4 sjöur á einum degi úff maður.
Kveðja til ykkar meira seinna
Stuð djamm eftir langt hlé!
10.7.2007 | 16:30
Vá ég veit að ég hef verið löt og allt það en það er bara nóg að gera og það breytist lítið. En langar að deila með ykkur að þegar við komum aftur frá Mallorka þá var búið að plana djamm með Padelhópnum mínum. Nú krakkarnir fóru til vina, Ólafur Ketill fór alla helgina með tvíburunum vinum sínum á ströndina og skemmti sér náttúrulega frábærlega, en Perla Líf var hjá Chiqui og Jose á föstudagskvöldið og svaf þar.
Nú ég fór og sótti Evu og við hittum fólkið á veitingastað niðri í bæ, var svo heppinn að foreldrar hennar eiga íbúð niðri í bæ þannig að við höfðum stæði til að leggja bílnum, geggjað. Fengum fínt að borða á ítölskum veitingastað og upp úr miðnætti drifum við okkur að fara að kíkja á pöbbana. Úff það sem við gátum hlegið, dansað og skemmt okkur var nú bara alveg geðveikt. Kennarinn okkar vinnur svo líka á stóru diskói sem er opið langt frameftir og þangað fórum við og ókeypis drykkir. Vorum mjög lengi eða ég var komin heim til mín upp úr kl 6 um morguninn. En ég verð að segja að ég hef ekki skemmt mér svona vel mjög lengi.....endurtökum þetta sko pottþétt!
Mallorka!!
1.7.2007 | 10:08
Hér kemur nú smá ferðasaga frá Mallorka. Þetta fór nú allt vel þó að við fengum hótel á síðustu stundu, smá seinkun varð á fluginu en við vorum þó allavegana bókuð í flugið, ég var orðin stressuð að það myndi klikka eins og fleira. Hótelið var við hliðina á flugvellinum, mjög slakt hótel og á þessu verði sem þeir seldu okkur herbergið á síðustu stundu var með ólíkindum. En þar sem ég var ekki komin til að vera á hótelinu lét ég mig þetta litlu skipta, þó að það versta væri að dýnurnar voru mjög lélegar. Við vorum með bókaðan morgunmat og þurftum að fara smá spöl til að fara í hann en það er nú ekkert hægt að kvarta yfir honum, hann var mjög fínn. Ákváðum svo að gá hvernig sundlaugarnar væru en garðarnir voru vægast sagt ömurlegir og litlar sundlaugar, ströndin var 70m í burtu og alveg yndisleg þannig að þar höfðum við það bara alveg frábært fyrsta daginn. Fórum svo til Palma að skoða okkur um en þar sem var laugardagseftirmiðdagur þá voru söfnin og ekkert opið nánast, þannig að við vorum nú ekki lengi, fengum okkur svo bara að borða þarna nálægt hótelinu og röltum aðeins um.
Á sunnudeginum fórum við í eina frábærustu ferð sem ég hef farið, fórum með eldgamalli lest frá Palma til Soller sem er á vesturströndinni tókum svo sporvagn þaðan niður að höfninni og þaðan tókum við bát til Sa Calobra sem er frekar norðarlega á eyjunni, pínulítil steinaströnd og rosa fallegt, borðuðum þar og fórum svo á ströndina sem var full af medúsu og varla hægt að baða sig....krakkarnir gerðu tilraunir en ég hafði ekki áhuga. Mánudagurinn var rólegur, skoðuðum Palma betur og fórum svo á ströndina, yndislegt líf. Á þriðjudaginn sóttum við okkur bílaleigubíl og keyrðum til Porto Cristo að sjá Drekahellana þeir voru ekkert smá flottir og risa stórir, fórum lengra norðureftir til að borða og tókum það svo rólega á bakaleiðinni, keyrðum aðra leið og skoðuðum bæina sem við fórum í gegnum. Sjóræningasýning var svo endirinn á góðum degi, reyndar var hún öll á ensku sem ég hafði ekki búist við en þetta var mjög gaman, þvílík atriði.
Miðvikudagurinn var mjög skýjað og við keyrðum alveg nyrst á eyjuna að skoða þar, rosa fallegt og það sem við þurftum að fara af fjallvegum var ekkert lítið, en það fannst mér í raun skemmtilegast við þetta, útsýnið sem þú fékkst og svoleiðis, þetta var ógleymanleg ferð, þurftum reyndar að sleppa Valldemosa sem var bærinn sem ég ætlaði að skoða en hann geymist þá bara þangað til næst. Síðasta daginn fórum við í vatnaland og það var skýjað á köflum en rosa fínn dagur, hittum svo Elenu vinkonu okkar og borðuðum kvöldmat með henni. Heimferðin gekk mjög vel og það er yndislegt að vera komin heim!! En ferðin var mjög vel heppnuð!